Tvöföldun ónauðsynleg

Það er meira en nóg að aðskilja akstursstefnur. Það er hægt að gera með 2+1. Slík framkvæmd skilar meira öryggi fyrir mun lægri upphæðir.
mbl.is Telja tvöföldun Suðurlandsvegar brýnasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held því miður  að Íslendingar kunni bara ekki að keyra á 2+1 vegi...

Erling (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 20:01

2 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Það vefst ekki fyrir þeim þegar þeir eru erlendis.

Birgir Þór Bragason, 2.8.2009 kl. 20:11

3 identicon

Birgir, það hjálpar þeim mikið erlendis að þeir eru mikill minnihluti ökumanna. Nánast alltaf þegar ég ek hér eftir götum þar sem fleiri en ein akrein eru í sömu átt sé ég sama hegðunarmynstur, einhver sem er fyrir aftan annað ökutæki fer á næstu akgrein, gefur í þar til hann er samhliða, og heldur svo sama hraða. Þetta hegðanamynstur bíður upp á vandamál þegar 2 breytist aftur yfir í 1 eins og hefur sést þegar mikil umferð er í bæinn eftir þessum eina 2+1 kafla sem er á landinu.

Kjartan Þór (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 22:58

4 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Bætt umferðaröryggi á Suðurlandsvegi er brýnasta verkefnið í samgöngumálum á Íslandi. Tvöföldun Suðurlandsvegar er ekki það brýnasta.

Bæta má umferðaröryggið með 2+1 vegi, aðskilnaði gagnstæðra akreina. Til þess þarf ekki að tvöfalda veginn.

Með 2+1 vegi fæst  stóraukið umferðaröryggi á mun lengri vegarkafla en með 2+2 vegi, fyrir sömu fjárhæð. Slíkt bjargar fleiri mannslífum og forðar frá fleiri alvarlegum umferðarslysum. Þess vegna mæla öll rök með 2+1 vegi á þessarri leið, nema pólitísk vinsældarrök. En, af þeim höfum við fengið meira en nóg!

Soffía Sigurðardóttir, 2.8.2009 kl. 23:36

5 identicon

Stæðasti hluti kostnaðarmunn á 2+1 og 2+2 er að þá gerir vegagerðin ráð fyrir stefnugreindum gatnamótum í staðin fyrir mislægum,  að halda því fram að stefnugreind gatnamót séu öruggari en mislæg er bull.  Það að setja 2+1 á suðurlandsvegi er eins og að setja 16 manna björgunarbát í 18 manna skip hann bjargar sumum en ekki öllum ég vil bjarga öllum.

Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 01:00

6 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Fengið að láni frá FÍB vefsíðu

Lúxus fyrir ökumenn getur kostað það að 18 manns slasist mjög alvarlega eða látist á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi

- eftir Rögnvald Jónsson verkfræðing.

http://www.fib.is/myndir/R%F6gnvaldurJ%F3nsson.jpg
Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur.

Að undanförnu hefur mátt lesa það í blöðum, í viðtölum í útvarpi og  sjónvarpi að samgönguráðherra hafi hug á því að láta tvöfalda Suðurlandsveg að Selfossi og Vesturlandsveg norður fyrir Hvalfjarðargöng. Hann virðist hafa með þessu látið undan þrýstingi þingmanna, sveitarstjórnarmanna og annarra aðila sem hafa farið hamförum nú undanfarið enda kosningar í nánd. Það er vel skiljanlegt að fólk vilji tafarlausar úrbætur á þessum vegum vegna þeirra tíðu slysa sem hafa orðið á áður nefndum vegarköflum. En hvað er þá til ráða? Hér er um tvo möguleika að ræða. Annarsvegar 2+1 vegi með hringtorgum og hinsvegar 2+2 vegi með mislægum gatnamótum. Hér á eftir ætla ég að vekja athygli lesenda á þrennu. Í fyrsta lagi lengd framkvæmdatíma, í öðru lagi umferðaröryggi þessara tveggja kosta og í þriðja lagi kostnað við framkvæmdirnar.

a)    Framkvæmdatími við gerð 2+2 veganna er mjög langur og þar er bæði um að ræða langan undirbúningstíma og framkvæmdatíma. Það þarf að fara með þessar framkvæmdir í umhverfismat og kaupa upp dýr lönd undir vegina. Framkvæmdatími 2+1 veganna er skammur og undirbúningstími er stuttur þar sem ekki þarf að gera umhverfismat og ekki þarf að kaupa lönd. Hægt væri að bjóða út strax fyrstu framkvæmdir við Suðurlandsveg.

b)    Sýnt hefur verið fram á að umferðaröryggi 2+1 veganna er næstum því jafn gott og 2+2 veganna og þeir anna umferð fyrir næstu framtíð. Með því að nota þessa lausn væri hægt að koma í veg fyrir mörg alvarleg slys og banaslys vegna miklu styttri framkvæmdatíma. Lauslega má gera ráð fyrir því að framkvæmdatími 2+2 veganna verði minnst tvisvar sinnum lengri.

c)    Gera má ráð fyrir því að kostnaður við byggingu 2+2 vegina sé allt að fjórum sinnum hærri en fyrir 2+1 vegina.

Hversvegna er þá verið að mæla með byggingu 2+2 vega? Ég fullyrði það að í engu öðru landi mundu menn láta sér detta það í hug hvað þá meira. En hvaða afleiðingar gæti þá þetta haft ef af verður. Eins og ég skil umræðuna og kröfur þrýstihópanna þá er aðalástæðan fyrir framkvæmdunum bætt umferðaröryggi. Á síðustu fimm árum hafa að meðaltali slasast alvarlega eða látist 12 manns árlega í umferðarslysum á vegarköflunum frá Hafravatnsvegi að Biskupstungnabraut og frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum. Miðað er hér við að slysum fækki um helming þegar framkvæmdum er lokið fyrir báða kostina. Sé reiknað með að líklegur framkvæmdatími sé tólf ár fyrir 2+2 vegina og sex ár fyrir 2+1 vegina þá mundi á þeim tíma  slasast alvarlega eða látast 108 manns sé framkvæmdatíminn tólf ár en 90 manns verði hann helmingi styttri. Þetta er mjög varlega áætlað og líklegra er að framkvæmdatími fyrir 2+2 vegina verði miklu lengri.

Þessi mismunur á fjölda umferðarslysanna ætti að verða alveg næg ástæða til að leggja af áætlanirnar um byggingu 2+2 veganna þar sem ekkert virðist mæla með þeim. Því til viðbótar verða þessi 18 slys alvarlegustu slysin því aðgreining akstursstefna kemur í veg fyrir þau allra hættulegustu. Mörg brýn verkefni í vegagerð annars staðar á landinu sem mundu bæta umferðaröryggi og þar með fækka alvarlegum slysum hafa beðið óhóflega lengi og væri því meiri þörf á að sinna þeim heldur en setja peninga í óarðbærar framkvæmdir eins og virðist vera ætlunin.



Rögnvaldur Jónsson

Birgir Þór Bragason, 3.8.2009 kl. 09:01

7 identicon

ég hef alveg lesið þessi grein það er margt í henni sem mér finnst skrítið  liður a) allt tal um framkvæmdatíma stenst ekki hann er ákvörðun stjórnvalda það tök stjórnvöld ekki nema um  2 ár að koma bakkafjöruhöfn á stað þetta er spurning um vilja.

b) Það er líka þessi setning að umferðaröryggi sé næstum eins gott ég er bara ekki sáttur við 16 manna bát í 18 manna skip. 

c) Það veit ég líka að vegagerðin hefur ekki verið að tala um 2+1 með hringtorgum eins og Rögnvaldur er að gera í þessari grein heldur með stefnugreindum gatnamótum ég hef eigan séð bera saman það sem kannski ætti að gera það er 2+1 og 2+2 með mislægum gatnamótun þá meina ég í kostnaði. 

Mér finnst númer 1 2 og 3 að það þurfi að hefja framkvæmdir strax það er hægt með 2+2 upp að litlu kaffistofu. Ég er langt frá að vera hlutlaus eftir að hafa lent í alvarlegu slysi á sandskeiði ?

Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 10:23

8 Smámynd: Morten Lange

Hér er ég sammála þér Birgir Þór og hef lengi verið, eða allt frá því að þessu var kynnt fyrir mér í umferðarráði. 

Það  er reyndar sumt við 2+1 lausnir sem er sennilega ekki búið að skoða nógu vel og það eru meðal annars aðgengi og þægindi hjólreiðamanna.   Ef góður vegaöxull er,  með góðu yfirborði  sem verður samt ekki notað af bílum að öllu jöfnu, þá bjargi það miklu.

Morten Lange, 3.8.2009 kl. 15:21

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

2plús1 kemur ekki í veg fyrir framúrakstur þar sem umferð er á móti. Umferð um Suðurland réttlætir fulla tvöföldun og það á ekki að bíða með það. Biðin og síðar tvöföldun kostar meira.

Skoðið slysatíðni á Keflavíkurveginum fyrir og eftir tvöföldun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.8.2009 kl. 22:32

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vegöxull!?? Þetta heitir vegöxl

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.8.2009 kl. 22:33

11 Smámynd: Morten Lange

Takk fyrir leiðréttinguna,  Gunnar

 En hvað átt þú við með að 2+1 komi ekki í veg fyrir framúrakstur.  Ég mundi halda að vegriðið mundi einmitt gera það.  Þegar fjallað er um nýja 2+1 á íslandi þá er átt við 2+1 með vegrið, sennilega víravegrið,  á milli akstursstefnum.  ( Næstum 100% pottþétt :-)   

Þú bendir  á Keflavíkurveginn ( þar sem hraðakstur hefur verið mikill, sennilega aukist,  og slysin  gerast enn) .  Það væri síst síðra að skoða slysatölur fyrir 2+1 kaflanum í Svínahrauni.  Að vísu vanta þar alminnilegan vegöxl.   

Það verður að öllum likindum og vonandi ekki þörf á tvöföldun vegna umferðar næstu 50 árin.  Orkuverð mun hækka, umhverfis- umferðsaröruggis-  og heilsuvitund  aukast. Frekar fjölga rútferðum og gefa þeim forgang, eða byggja járnbraut eða monorail. 

Morten Lange, 3.8.2009 kl. 22:47

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hefur ekki orðið eitt einasta dauðaslys eftir tvöföldun á Keflavíkurveginum. Mikil breyting þar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.8.2009 kl. 23:09

13 Smámynd: Neddi

Það er eitt sem að gleymist alltaf í allri umfjöllun um 2+1 vegi og það er bifhjólafólk. Víragegriðin, eða ostaskerarnir eins og við kjósum að kalla þau, eru beinlínis stórhættuleg bifhjólafólki, bæði vegna þess að staurarnir í þeim eru mjög berskjaldaðir og svo eru það vírarnir.

Það eru dæmi um það út í heimi, t.d. á Nýja Sjálandi, um að menn hafi hreinlega klipst í sundur við það að lenda á þessum óskapnaði. Þetta hefur orðið til þess að víða í Evrópu eru menn hættir að nota þessi víravegrið og jafnvel farnir að fjarlægja þau.

FEMA, Evrópusamtök bifhjólafólks, hefur um árabil barist fyrir vegriðum sem eru mótorhjólavæn og þessi barátta hefur skilað því að ESB er nú að vinna að reglugerð um hönnun vegriða og talið er að í þeirri reglugerð verði víravegriðin alfarið bönnuð.

Bifhjólin eru hluti af umferðinni og það verður að taka tillit til þess. Svo ég vitni í orð Aline Delhaye, sem situr í stjórn FEMA, "whatever minority or majority of road users it is about, in no way should the safety of some endanger the life of others!"

Neddi, 4.8.2009 kl. 09:13

14 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Við komumst lítið áfram í því að ræða um öryggi mismunandi gerða vega eða vegriða með því að benda á einstök slys. Allar gerðir vega og allar gerðir vegriða hafa sína kosti og galla.

Mér vitanlega hefur aldrei verið hægt að sýna fram á að víravegrið séu hættulegri mótorhjólamönnum en stálvegrið. Það má vel vera að slysahættan sé meiri vegna víravegriða ef menn lenda beint á staurunum, sem halda þeim uppi en það eru hins vegar yfirgnæfandi lýkur á að menn lendi á vírunum og þar, sem þeir gefa meira eftir en stálið í stálvegriðunum þá er slysahættan minni í þeim tilfellum. Það er því röng fullyrðing að víravegrið séu einhver dauðagildra samanborið við stálvegrið. Þau hafa líka sína hættulegu bletti.

Þá stendur eftir valið milli þess að hafa vergið og hafa ekki vegrið. Ég tel að umhverfi vega hér á landi og þá ekki hvað síst Suðurlandsvegi sé þannig að það sé nánast í öllum tilfellum betra fyrir alla vegfarendur að lenda á vegriði heldur en að fara út af veginum, svo ekki sé talað um að lenda á bíl, sem kemur úr gagnstæðri átt.

Hvað varðar fullyrðingu Gunnars Th Gunnarssonar um að umferðaþungin á Suðurlandsvegi réttlæti 2+2 veg þá er rétt að benda á það að umferðaþungin þar er að því er ég best veit undir 10 þúsund bílum á sólahring en 2+1 vegur getur annað 20 til 30 þúsund bíla umferð á dag en það fer eftir því hvernig umferðin dreifist yfir daginn hversu mikil umferðin þarf að vera áður en 2+1 vegur hættir að anna henni. Það er talið að 2+1 vegur á Suðrulandsvegi muni anna umferðinni í að minnsta kosti 30 ár.

Hvað varðar verktíma þá er nú þegar búið að framkvæma unhverfismat vegna 2+1 vegar og það að því viðbættu að hann kallar ekki á uppkaup á landi gerir það að verkum að það er hægt að hefja framkvæmdir nánast strax á slíkum vegi. Það þarf hins vegar bæði að fara fram umhverfismat og að gera saminga eða einnarnám á landi til að leggja 2+2 veg.

Ég skil nú ekki alveg samlíkinguna við 2+1 veg og því að vera með 16 björgunarvesti í 18 manna bát þar, sem sumum sé bjargað en ekki öllum. Það er fátt, sem bendir til þess að banaslys eða alvarleg slys verði meiri á 2+1 vegi en 2+2 vegi. Það er meira að segja svo að margir vegaverkfræðingar fullyrða að með þeim umferðaþunga, sem nú er á Suðurlandsvegi og ætla megi að verð á honum næsta áratugin í það minnsta muni alvarlegt umferðaslys verða færri á 2+1 vegi en 2+2 vegi. Bæði er það vegna þess að ökumönnum hættir til að aka hraðar á 2+2 vegi en 2+1 vegi og einnig er umferðin mun lengur að eyða hálku á leiðinni þegar umferðin dreifist á tvær akreinar en verður þegar hún er að mestu á einni akrein.

Svo má ekki gleyma því að það er hægt að aðgreina gagnstæðar akstursstefnur á margfals lengri vegakafla fyrir sama pening með 2+1 vegi og það kostar að leggja 2+2 veg. Það næst því mun betri árangur í að fækka slysum á þjóðvegakerfinu í heild með því að nota 2+1 vegi þar, sem það hentar fyrir hvern milljarð, sem settur er í það að fækka umferðaslysum. Þar, sem milljarðarnir úr ríkissjóði eru ekki óþrjótandi þá er það ekki spurning hvora leiðina er betra að fara ef markmiðið er að fækka umferðaslysum eins mikið og kostur er.

Sigurður M Grétarsson, 4.8.2009 kl. 21:08

15 identicon

Alveg er þetta merkilega umræða menn fullyrði hér út og suður og allir virðast vita þetta best sjálfir. eins og ég hef áður sagt skal ég viðurkenna vanhæfi mitt í þessum málum en tel mig vel geta komið fram með mín sjónarmið samt. 

menn bera hér alltaf saman tvo mismunandi hluti það er 2+2 og mislæg gatnamót og 2+1 og stefnugreind. 

Mig langar til að varpa hér fram 2 spurningu til þeirra sem mæla á móti 2+2.

Var Reykjanesbrautin mistök ? átti hún að vera 2+1 

Væru  gatnamótin við Þrengslavegamótin  betri án undirganga ?  það er það sem vegagerðin vildi gera og vill gera með 2+1 alla leiðina. halda menn að yrðu ekki slys á þessum gatnamótum þau verða síður á mislægjum . 

Kostnaðarmunur er mestur í þessum gatnamótum ekki hvort það eru 3 eða 4 akreinar

Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 22:35

16 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Já bæði lýsing á Reykjanesbraut og 2+2 þar eru mistök. Það má líka bæta þvi við að verkið er bara hálfnað þar til vegrið hafa verði sett á veginn, beggjavegna á báðum akstursstefnum.

Í núverandi stöðu þjóðarinnar eru gatnamót sem kosta 150 milljónir vond lausn þegar ná má sama öryggisárangri með hringtorgum fyrir 50 milljónir. Þrengslagatnamót voru ákaflega vond gatnamót en hringtorg hefði stórlagað þau.

Það er ekki rétt hjá þér að kostnaðarmunur liggi að mestu í mismunandi gatnamótum. Tvíbreiður vegur með miklu bili á milli er miklu dýrari og það sem verra er er að í þeim pakka ætla menn að sleppa vegriðum. Þau eru þar af leiðandi ekki með í kostnaðartölum.

Eftir lestur mjög mjög margra skýrslna um öryggismál svo og um kostnað við vegagerð þá tel ég mig alveg í stakk búinn til þess að fullyrða um þessi mál. :)

Birgir Þór Bragason, 5.8.2009 kl. 07:27

17 identicon

Birgir ég ef það ekki að þú hefur lesið mikið um öryggismál og margt gott sem þú hefur sent frá þér um þessi mál og er það vel.

 Það sem ég hef verið að benda á að menn eru alltaf að bera saman ólíka hluti í kostnaði það er 2+2 og mislæg og 2+1 og stefnugreind, svo er því haldið  fram að eingin munur sé á þessu tvennu í slysatíðni það er rangt. 

  Vegagerðin  hefur aldrei tala um hringtorg á þessari leið en það má vel vera að þeir ættu að hafa þann möguleika inni líka þá bæði í kostnaði og slysatíðni sjóvá var komin með þetta inn í sína tillögur um 2+2 vel má vera að sú lausn væri skinsamlega og með tímanum breyta svo í mislæg.

Mundir þú skifta um skoðun í öðru ástandi væri þá gatnamót sem kosta 150 milljónir góð lausn. 

Ég geri mér vel grein fyrir að 4 akrein kostaði eitthvað meira en samkvæmt því sem vegagerðin lagði fram að vísu árið 2006 þá vó mislægju gatnamótin þyngra en 4 akreinin.  Mér finnst það fullkomlega réttlætanlegt að setja nokkrum milljörðum meira í þessa vegi  þar sem það TRYGGIR betra öryggi ALLRA, ekki bara næstum því allra. 

Mér finnst umræðan um vegamál hér stórskrítin við Íslendingar getum í gegnum árin bruðlað í hús eða allan annað en vegi.  Þegar kemur að þeim þurfa helst að verða nokkur alvarlega slys áður en við vöknum og þá má sko alls ekki gera meira en minnst sem hægt er að komast af með. 

þetta er óþolandi fyrir þann fjölda sem mist  hefur það sem þeim er dýrmættast það er sína nánustu og læt ég athugasemdum mínum á þínu bloggi lokið enda er eins og að tala við steinn að ræða þessi mál við þá sem ekki vilja bjarga nema sumum á þjóðvegum landsins. 

Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 10:47

18 Smámynd: Morten Lange

@Neddi : Tilvitnanir í skýrslur eða gögn FEMA um víravegrið væri mjög vel þegið. Gerði snögga leit á google og á sniglar.is án árangurs.

Annars sýnist mér sem FEMA flokki sér og ykkur vélhjólamenn með gangandi og hjólandi í  mörgu sem snúi að umferðaröryggi.  Það væri áhugavert að kynnast nánar hvað sé sameiginlegt og ekki á milli sérstaklega hjólreiðamenn og vélhjólamenn, þegar kemur að umferðaröryggi.  Eitt sem er orðið augljóst okkur hjólreiðamönnum nýlega er að sýnileiki okkar velti ekki síst á að vera staðsettir þar sem ökumenn bíla leita með augun þegar þeir athuga með ógnanir gegn sér , það er að segja þar sem þeir vænta þess að aðrir bílar geta dúkkað upp. 

Hjalpar lítið að vera í neongúlum vesti ef athygli bílstjórans lendi aldrei þar sem þú ert staðsettur.  Þar af leiðandi eru bæði vélhjólamönnum og hjólreiðamönnum ráðlagt af sérfræðingum að taka akreinina þegar komið er að gatnamótum.  Fleira mætti telja upp, en ég lýk skrif minn hér í bili.

Morten Lange, 5.8.2009 kl. 15:27

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nýleg sænsk rannsók bendir til að víravegrið séu ekki hættulegri vélhjólamönnum en aðrar gerðir. Þetta var í sjónvarpsfréttum um daginn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 17:53

20 identicon

Ég má til með að leggja hér orð í belg varðandi tvöföldun vega, ef tvöföldun Suðurlandsvegar verður unnin með sama gæðastuðli og tvöföldun Reykjanesbrautar er að ég held betur setið heima en af stað farið.

Það að ekki hafi orðið dauðaslys á Reykjanesbraut eftir tvöföldun er að mínu mati einskær heppni frekar en vitni um gæði tvöfaldana. Munur á veghæð á Reykjanesbraut er stórfurðulegur, t.d. eru á í það minnsta einum ef ekki fleiri stöðum þar sem er beygja þannig að innri akbrautin liggur í hærra plani en sú ytri. Þetta getur orðið til þess að ef ökumaður á innri akbraut lendir á hálkublett eða missir stjórn á ökutækinu af öðrum orsökum þá mun ökutækið að öllum líkindum kastast viðstöðulaust yfir á ytri akbrautina en þar er umferð jú í gagnstæða átt. Svona hæðarmunur er líka á mörgum stöðum þar sem akbrautirnar liggja nánast beint, en er engu að síður hættulegt. Ef ég man rétt var hæðarmunurinn kringum meter á einhverjum köflum skv. grein sem birt var í FÍB blaðinu fyrir einhverjum árum síðan, ég er hræddur um að vegriðin kringum þessa tvöföldun verði það dýr að það sé langt í að þau verði að veruleika.

Ef eitthvað er að marka aðra vegi sem lagðir hafa verið á Íslandi að undanförnu er líka afar sennilegt að hvörf fari að myndast í nýrri akbrautinni, eins og gerst hefur á nýrri akbrautinni þar sem Vesturlandsvegur hefur verið tvöfaldaður milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Það er til háborinnar skammar að árið 2009 séu farin að myndast hvörf í vegum sem eru innan við 10 ára gamlir. Þetta heitir að mínu mati að kasta peningum skattborgara út um gluggann.

Hvað svo sem gert verður við Suðurlandsveginn þá kallar 2+1 vegur á hugarfarsbreytingu hjá íslenskum ökumönnum að þurfa ekki nauðsynlega að keyra samhliða næsta bíl á undan á sama hraða, sem er ósiður sem þarf að leggja af hvort sem er.

Hins vegar eru góð sannindi sem hafa verið notuð um afköst upplýsingakerfa, eins og GSM kerfisins, en þau eru að þú byggir ekki upp kerfið til að mæta álaginu eins og það er mest, þú byggir kerfið upp til að afkasta aðeins meira en meðalálagið á afskriftartíma kerfisins. M.ö.o. framreiknað meðalálag auk einhverrar skekkju er notað sem viðmið. Ef miðað er við hámarksálag þá ertu mögulega að byggja kerfi sem afkastar ástandi sem mögulega verður einungis 1-3% af árinu og kerfið verður of dýrt í uppbyggingu og rekstri.

Kjartan Þór (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 18:01

21 Smámynd: Neddi

Sæll Morten og aðrir sem vilja kynna sér málið.

FEMA hefur unnið mjög góðar skýrslur um vegrið með tilliti til öryggis mótorhjólafólks og eru allavega tvær þeirra aðgengilegar á síðu samtakanna. Annars vegar er um að ræða skýrslu sem heitir Motorcyclists & Crash Barriers Project Report og er gerð með stuðningi ESB og svo er það skýrsla sem heitir The road to success og er frá árinu 2005 en þar er einmitt minnst á það að í Danmörku hafa víravegriðin verið tekin niður af því að þau eru ekki talin örugg.

Ég er sammála því að það er margt í sambandi við öryggismál mótorhjólamanna, hjólreiðamanna og jafnvel gangandi vegfarenda sem er sameiginlegt og er augljósasta dæmið sýnileikinn. Lykillinn að auknu öryggi allra í umferðinni er að mínu mati sá að allir sýni hver öðrum tillitssemi óháð ferðamáta og að öryggið sé hugsað frá öllum hliðum.

Neddi, 6.8.2009 kl. 09:30

22 identicon

Spurningin um 2+1 eða 2+2 er miklu frekar hvernig veg á að byggja á milli Suðurlands og Reykjavíkur.  Ákveðin hópur manna hefur tekið 2+1 veg sem trúaratriði í öllu tilvikum áháð umferð og aðstæðum.  Fullyrðingar er haldið á lofti að 2+1 vera öruggari og kosti frá 1/3 eða helming af 2+2 vegi.

Ódýrasta útgáfan af 2+1 Suðurlandsveginum þýðir að fjöldi hringtorga verði nær 20 stk.   Algjörlega verði sleppt því að sameina tengivegi við Suðurlandsveg og þeir áfram beintengdir við aðalveginn.  Suðurlandsvegur verður því sambland af innanbæjarvegi og mótorvegi sem er hættulegasta vegagerð sem til er.

Þessi ódýra hringtorga vegagerð hefur Þegar verið reynd á vesturlandsveginum á milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur (þar sem ég bý).  Hægt er að fara á slysaskrá Umferðarstofu (http://us.is/Apps/WebObjects/US.woa/wa/dp?id=1000482) og sjá árangurinn.   Þar hafa nú þegar nokkrir slasast alvarglega við og í hringtorgunum ásamt óteljandi umferðaróhappa með engum og litlum meiðslum.  Þó að hringtorg séu öruggari innanbæjar og illskárri kostur en venjuleg gatnamót þá verða þau hættulegri eftir því sem hámarkshraði verður hærri, þ.e.a.s. meiri hraða milli hægasta og hraðasta bíls.   Það er því algjörlega öruggt ódýra 2+1 lausnin sem er boðuð án mislægra gatnamóta mun þýða fleiri alvarleg slys en 2+1 eða 2+2 lausn með mislægum gatnamótum.  Dæmin sanna það hér á landi.

Til að átta sig á kostnaði er ágætt að bera saman raunverulegar tölur.  Tökum dæmi veginn í Svínahrauni og Reykjanesbraut:

Svínahraun-Hveradalabrekka:
2+1 (mjór án vegaxla og 1 mislæg gatnamót, Í þessar framkvæmd er vegur byggður upp að hluta), samtals 5 km.  Lægsta boð í þann veg var c.a. 278 milljónir eða 55,6 milljónir á km.

Hvassahraun-Strandaheiði:
Breiður 2+2 vegur með tveimur mislægum gatnamótum, samtals c.a. 9 km.  Í þessari framkvæmd eru fleiri mislæg gatnamót á hvern km. Lægsta boð var 616 milljónir eða 68,5 milljónir á km.

Hvað gerist ef valin er 50% til 75% ódýrari 2+1 vegur:
Umferð mun leitast á 1+1 vegi eins og Suðurstrandarveg, Mosfellsheiði, Þrengsli og fleiri hliðarvegi vegna lágs hámarkshraða á mjóum 2+1 vegi með tug hringtorga.  Slysum mun fækka á Hellisheiði en fjölga á hliðarvegunum.  Áskrift á umferðaróhöppum við hringtorg og nokkrum alvarlegum slysum vegna þeirra.  Hámarkshraði 80 km, meðalhraði lægri en á núverandi vegi.  Meiri mengun með stöðugri hemlun og inngjöf.  Færri banaslys en á núverandi 1+1 vegi.

Valinn er góður með mislægum gatnamótum 2+1:
Umferðslysum fækkar verulega en eftir situr vegur sem gefst upp á sumrin, þá sérstaklega um helgar (þetta hefur sannast í ár og lögregla hefur sérstaklega þurft að biðja menn að nota ekki framúrakstursakreinina).  Vegurinn getur stíflast ef flutningabíll bilar á stöku akreininni.  Við náttúruhamfarir er vegurinn verri en gamli 1+1 vegurinn.  Sparnaður á bilinu 15 til 30% miðað við sambærilegan 2+2 veg. 

Valinn er 2+2 vegur með venjulegan Norður Evrópskan hámarkshraða:
Stofnkostnaður vinnst upp á c.a. 10 árum vegna þjóðhagslegs sparnaðar við greiðari samgöngur og styttri ferðatíma.  Umferð mun beinast af hliðarvegur og á hraðbrautina. Slysum mun ekki bara fækka á Hellisheiði heldur á öllum hliðarvegum vegna þess að ökumenn kjósa greiðari samgöngur.   Í náttúruhamförum og slysum leikur vegurinn lykil hlutverki að bjarga mannslífum.

Það er alveg ljóst og þarf engan snilling að sjá hvaða kostur er vænlegastur fyrir þau sem sækja menntun og atvinnu til höfuðborgarinnar.   Með alvöru 2+2 vegi er Suðurland endalega tengt inn á sameinað atvinnusvæði á suðvestur horninu.  Góð reynsla er af slíkri vegagerð hér landi sem er Reykjanesbrautin þó að þar vanti ennþá að nýta fjárfestinguna af viti með byggingu vegriða og eðlilegan hámarkshraða.

Ég bendi líka á grein mína:

http://www.fib.is/?ID=1514&adalmenu=13

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 16:37

23 Smámynd: Birgir Þór Bragason

ÓSKAR hvað varstu að pæla þegar þú skrifaðir þetta????

EN ókey nú höfum við þína sýn á málið.

Dæmi hver fyrir sig.

Birgir Þór Bragason, 6.8.2009 kl. 20:51

24 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Þó ódýrasta lausnin sé sú að hafa hringtorg þá er ekki þar með sagt að það sé sú lausn, sem menn ætla sér að fara. Reyndar hafa menn einnig talað um venjuleg gatnamót með miðeyjum við beygjur. Höfum í huga að það hafa ekki orðið mörg alvarleg slys á Suðurlandsvegi vegna aksturs út af eða inn á vegin heldur hafa þau flest orðið vegna þess að bílar úr gagnstæðri átt rekast á eða vegna útafaksturs. Það var reyndar eitt alvarlegt slys á milli Hveragerðis og Selfoss á síðasta ári við gatnamót en það var með þeim hætti að fullyrða má að það hefði ekki orðið ef þessi gatnamót hefðu verið með miðeyju og afrein inn á hana.

Hvernig, sem á það er litið þá er 2+1 vegur mun ódýrari en 2+2 vegur jafnvel þó öll gatnamólt verið eins hvort, sem er hringtorg, plangatnamót eða mislæg gatnamót. Munurinn á veginum sjálfum verður alltaf þó nokkrir milljarjðar.

2+1 vegur með sams konar gatnamót og 2+2 vegur á þessari leið er i það minnsta jafn öruggur og 2+2 vegur ef ekki öruggari vegna lægri umferðahraða og minni hálku auk þess að vera þó nokkrum milljörðum ódýrari.

2+1 vegur dugar fyrir umferðaþunga Suðurlandsvegar í einhverja áratugi.

Það að vilja frekar 2+1 veg en 2+2 veg á Suðurlandsvegi snýst því ekki um "trúarbrögð" heldur einfaldlega það að vilja ekki sólunda peningum skattgreiðenda svo milljörðum skiptir og fá það eitt fyrir það að á mesta annatíma á sumrin séu menn nokkrum mínútum flótari milli Reykjavíkur og Slfoss.

Sigurður M Grétarsson, 6.8.2009 kl. 21:04

25 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Bara svo maður setji þetta upp í líkingarmál þá er 2+2 vegur á leiðinni milli Reykjavíkur og Selfoss eins og að byggja hús með 6 rúmgóðum herbergjum fyrir þriggja manna fjölskyldu. Það er sannarlega þægilegt að hafa rúmt um sig en peningum er illa varið þannig.

Sigurður M Grétarsson, 6.8.2009 kl. 21:10

26 identicon

Sigurður, tímasparnaðurinn getur verið allt frá 10 mín til 15 mín í einni ferð á venjulegum norður Evrópskum 2+2.  Þetta þýðir um c.a. 30 mín á dag fyrir þann sem þarf að sækja vinnu á Höfuðborgarsvæðinu.   Þetta er sambærileg og að færa Selfoss 20km nær Reykjavík miðið við veg með lágan meðalhraða (hættuleg gatnamót, +1 þrengingum og hringtorgum).   Þjóðhagslegur sparnaður við alvöru samgöngubót hleypur á nokkur hundruð milljónum á ári Suðurlandi í plús.   Slíkt þarf að sjálfsögðu að taka inn í reikninginn og er eitt mikilvægasta atriði við gerð samgöngu mannvirkja.

Það þarf að kynna fyrir Íslendingum eðlilegar umferðarlausnir í landi þar sem ekkert lestarkerfi er til staðar.  Eflaust dreymir marga um lestir hér á suðvestur horninu, saman ber nokkrar rannsóknir um það efni fyrir Reykjavíkurborg, Ríkið o.fl.  Niðurstaðan er margmilljarða stofnkostnaður og reksturinn dæmdur til ganga ekki upp.  Það er miklu viturlegra að nota takmarkað fjármagn í venjulega norður Evrópska vegi og láta þar við sitja.  

Eflaust hafa mjög margir þann draum að hér verði aðeins Norskir (þar er reyndar val að taka lest) vegir með leðjumalbiki, vírum og hringtorgum með 70 km meðalhraða.   Ef lífeyrissjóðir eiga að taka þátt í að bæta samsöngur eins og Suðurlandsveg á að taka meira inn í reikninginn en blautustu drauma þeirra sem vilja hæg-samgöngukerfi á Íslandi.

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 21:39

27 identicon

Sæll Birgir.

Ég held að þú vitir alveg hvað ég er að fara með þessum ábendingum, þó að ég taki annan vinkil og bendi á fleiri rök fyrir 2+2.  Það er undarlegt að þú berjist hatramlega gegn 2+2 vegum sem þú hefur góða reynslu af þeim í Danmörku með 130 km hámarkshraða.  Ég hef ekið um þver Bandaríkin og flest lönd N-Evrópu, reynsla mín á 2+2 vegum er sú að þeir eiga mjög vel við á milli þéttbýlisstaða á SV horninu.  Ein besta fjárfesting sem ein þjóð getur gert er að bæta samgöngur og stytta ferðatíma.  Ferðatími fólks er til dæmis megin inntak samgönguáætlunar Íslands.

Flestir ættu að muna að hraðbrautakerfi Þýskalands var byggt upp á krepputímum sem síðar átti eftir að skila landinu í fremstu röð Evrópuríkja.  Núna er kreppa á Íslandi og við eigum að ráðast í framkvæmdir með hjálp lífeyrissjóðanna með því að byggja örugga og greiða 2+2 vegi frá Reykjavík til Akranes, (klára) Reykjanes og Selfoss.

Ég gleymdi reyndar að bæta við þessum link við rökstuðning við 2+1 stífluna um helgar: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/02/okum_a_haegri_akrein_og_greidum_fyrir_umferd/

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 22:51

28 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Hatramlega???

Ég berst fyrir auknu öryggi. Aðskilnaður akstursstrauma er, eða ætti að vera, forgangsmál á þjóðvegum með mikla umferð. Það er hægt að aðskilja umferð á mun fleiri kílómertrum með 2+1 vegum en 2+2 fyrir þann aur sem til er í vegaframkvæmdir. Ég berst því fyrir 2+1 vegum en ekki gegn 2+2.

Birgir Þór Bragason, 7.8.2009 kl. 10:52

29 identicon

Birgir þú ert að berjast gegn 2+2 á þessari leið. Það er búið að taka þá ákvörðun með því að leggja annað  til hlýtur að vera að berjast gegn þessu annað er útúrsnúningur. 

Annars ætlaði ég að hætta hér vona bara að stjórnvöld fari að vakna svo ekki þurfi að sjá á eftir fleiri manslífum á þessari leið á meðan þú og aðrir berjist gegn því að þeim sé bjargað.  

Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 12:38

30 identicon

Hugmynd Rögnvalds um innanbæjarveg 2+1 veg í stað 2+2 er að henda krónum og spara aurinn.  Ekki ólíkt og þegar einbreiðamalbikið var í tísku hjá Vegagerðinni.  Það er alls ekki forsvaranlegt að bjóða Sunnlendingum upp á veg með talsvert lægri meðalhraða vegna hringtorga (undir 70km) en er í dag.   Það sem vantar inn í reikninginn er hver er þjóðhagslegur sparnaður við að byggja betri veg og þá kemur í ljós að 2+2 vegur er ódýrari en 2+1 sparnaðar vegur. 

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 12:51

31 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Birgir þú stur fullyrðinguna rangt Fram að 2+1 skili meira öryggi fyrir minni upphæðir, þú ert enn einu sinni að glepja um fyrir fólki, það er rétt að hugsanlega væri hægt að fara lengra í kílómetrum með 2+1 en 2+2 en þetta er auðvitað ekkert í hendi nema miða saman þannig og þannig undirlag ofl.ofl.

Enn við erum bara svo heppin að það er búið að taka ákvörðun um að vegurinn verður 2+2.

Og eitt enn Birgir, Íslendingar keyra ekki svo mikið á 2+1 vegum í útlöndum ferkar en aðrir því að að öllu jöfnu eru stofnbrautir hvergi 2+1 og aðrir vegir sjaldan nema þar sem langar aflíðandi brekkur eru þar eru klifurreinar.

Hættiði þessu bulli að sjálfsögðu á að leggja Suðurlandsveg 2+2 en óþarfi að gera það fyri helgi  gott væri samt að fara að byrja, mikið meira er nú ekki beðið um.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 7.8.2009 kl. 13:26

32 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

 Óskar. Ef við leggjum 2+1 veg með sams konar gatnamótum og hugmyndin er að hafa á 2+2 vegi og þá verður tímasparnaðurinn nánast engin með því að leggja 2+2 veg en kostnaðarmunurinn samt margir milljarðar króna. Hvað umferðaöryggi varðar þá verður munurinn einnig nánast engin og ef eitthvað er verða slysin fleiri á 2+2 vegi. Þessi aukaútgjöld verða því ekki til aukins umferðaöryggis og í raun er það eina, sem fæst fyrir þau að menn spara einhvern tíma, sem talandi er um á föstudags- og sunnudagsefirmiðdögum nokkrar helgar á sumri. Það að leggja marga milljarða aukalega í veg vegna umferðatafa nokkra klukkutíma á ári er út í hött.

Það má vel vera að í öðrum og mun fjölmennari löndum séu ekki lagðir 2+1 vegir á stofnbrautum en þeir eru samt, sem áður lagðir á vegi með mun meiri umferðaþunga en Suðurlandsvegur.

Ég segi það enn og aftur. 2+2 vegur á Suðurlandsvegi er eins og að byggja hús með sex rúmgóðum herbergjum fyrir þriggja manna fjölskyldu.

Sigurður M Grétarsson, 9.8.2009 kl. 20:21

33 identicon

Sæll Sigurður. Ef byggður er 2+1 vegur með sömu kröfum og 2+2 með mislægum gatnamótum og lagfæringum á hliðarvegum þá er sparnaðurinn engir milljarðar.  Mismunurinn er um 10 til 15 milljónir á kílómetra sem gerir 500 til 750 milljónir á allri framkvæmdinni.  Þú hefur einfaldlega verið blekktur eins og allir hinir með ónýtum leðjumalbikuðum innanbæjarvegi með 20 hringtorgum sem raunhæfan kost fyrir framtíð Suðurlands.

Tölur eins og helmingur eða mesta töfrabragði allra tíma sem er fjórum sinnum ódýrari, eins og sá mæti maður Rögnvaldur Jónsson heldur fram er blekking.  Þú getur séð verðmismuninn hér fyrir ofan á raunverulegum framkvæmdum á Íslandi.  Þ.e.a.s. Svínahraun og Reykjanesbraut, þ.e.a.s. 55,5 milljónir 2+1 og 68,5 milljónir 2+2 per km.  Verðið í dag verður væntanlega svipað og var á þessum framkvæmdum vegna harðrar samkeppni um verkið, jafnvel ódýrari.   Það þarf engan snilling að sjá að1 akrein kostar ekki 75% eða 50% af verkinu miðað við sambærilegan veg eins og þyrlað hefur verið upp.  Sparnaðurinn er í allt öðrum verkþáttum sem allir koma svo niður á umferðaröryggi og hagkvæmni vegarins.  Alvöru umferðaröryggi kostar pening, en sem betur fer skilar fjármagnið sér til baka með færri slysum.

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 22:08

34 Smámynd: Reputo

Flutningsgetan eykst nánast ekkert með 2+1 þar sem vegurinn flytur aldrei meira en þar sem hann er þrengstur. Umferðarþunginn eykst ár frá ári og það vantar ekki nema, að mig minnir, um 2000 bíla meðaltals aukningu á dag til að núverandi vegur sé sprunginn.

Ég sting upp á því að gerð verði áætlun til 40 ára þar sem byrjað verður að tvöfalda í báðar áttir frá Rvk. og tvöföldun hringvegarins verði lokið ca. 2050. Íslendingar verða þá orðnir á milli 400 og 500 þús. auk allra ferðamannanna, en þeim fjölgar einnig mikið ár frá ári.

Bara svona mín pæling.

Reputo, 23.8.2009 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband