Hugleiðing

Undanfarna daga hafa þó nokkrir látið að því liggja á bloggsíðum sínum að akstursíþróttamenn séu fíklar. Því hefur einnig verð haldið fram að akstursíþróttamenn hafi haft í hótunum við viðkomandi. Illt er ef satt er. Það er spurning hvort akstursíþróttafélögin eigi að eltast við þessar ávirðingar á félagsmenn sína og ef sannar eru finna þá seku og taka á þeim samkvæmt þeim reglum sem við eiga. Mér segir þó svo hugur að ekki sé við íþróttamennina að sakast heldur einstaklinga sem ekki eru í íþróttafélögum.

Hraðafíklar er orð sem sumir þessara bloggara vilja festa við akstursíþróttamenn og það í mjög neikvæðri merkingu. Í þessu sambandi velti ég því fyrir mér hvort aðrir sem stunda íþróttir þar sem hraðinn skiptir máli verði líka stimplaðir fíklar. Skíði, kappreiðar, siglingar, spretthlaup og hjólreiðar koma í hugann. Á að láta þetta sem vind um eyru þjóta eða á að svara þessu?

Þessi skrif eiga það sameiginlegt að tengjast umferðaröryggismálum. Skuldinni er skellt á akstursíþróttamenn í fyrstu, en flestir sem hafa gert það hafa séð að sér og reynt að draga orð sín til baka. Lesendum er kennt um. Þeir eiga að hafa misskilið skrifin, ekki hafi verið átt við íþróttamennina heldur einhverja aðra. Á bloggsíðum sem haldið er úti af sama einstaklingi, bæði á mbl.is og visi.is, er sagt að tveir bloggarar hafi „orðið fyrir aðkasti og hálfgerðum hótunum af hálfu bifhjóla- og akstursíþróttamanna vegna skrifa sinna gegn ofsaakstri.“ Hvað síðuskrifari hefur fyrir sér í því að akstursíþróttamenn hafi verið hér að verki veit ég ekki, en eins og áður sagði, illt er ef satt er.

Því miður er það svo að ólöglegur kappakstur er stundaður á Íslandi. Slíkt er ekki á vegum íþróttafélaga. Þau hafa á síðastliðnum 30 árum átt gott og farsælt samstarf við fjölmarga aðila varðandi skipulagningu og framkvæmd löglegra akstursíþróttamóta. Það hafa þau gert í samræmi við lög og reglur.  Bæði íslensk lög og lög og reglur FIA, alþjóðasambands akstursíþróttafélaga. Fyrir rúmum tuttugu árum setti FIA þær reglur að rallýbílar mættu ekki vera meira en 300 hestöfl. Það var gert af öryggisástæðum, því reynslan hafði kennt mönnum að bestu ökumenn í heimi réðu ekki við meira afl. Í dag er svo komið að framleiðendur bíla, fjöldaframleiða slík tæki (án öryggisbúnaðar eins og í keppnisbílum) og slíkir bílar eru löglegir á Íslandi, fyrir nýliða meira að segja. Þarna hafa ráðamenn, ekki þó eingöngu á Íslandi, sofnað rækilega á verðinum. Sú staðreynd að hundruðir bifreiða jafnvel þúsundir, með slíkt afl í vélarsalnum, eru í notkun eða misnotkun hjá reynslulitlum ökumönnum er mér mikið áhyggjuefni. Ofsaakstur er auðveldur á slíkum bílum.

Akstursíþróttafélögin hafa tæki til þess að taka á slíkum akstri félagsmanna sinna og það gera þau ef þurfa þykir. Áminningar, fésektir, brottvísanir úr keppnum, útilokanir frá keppnum og allsherjar bann við þátttöku í íþróttinni sem og öðrum íþróttum undir hatti Alþjóðaólympíusambandssins eru viðurlögin samkvæmt lögum og reglum íþróttarinnar. Undir slík lög gangast þeir sem ganga í akstursíþróttafélög. Ég fullyrði að það er meiri agi innan akstursíþróttamanna en hins almenna ökumans í íslensku samfélagi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er mjög góð hugleiðing.  Því miður er umræðan á Íslandi að komast í þrot um "ofsa/hraðakstur".  Núna er þetta farið að snúast um akstursíþróttamenn eða mótorhjólafólk sem nauðgara eða óþjóðalýð.  Óaðvitandi er hluti af öfgafyllstu einstaklingunum sem hafa áhuga á umferðaröryggismálum að setja fleyg í samtöðu almennings.  Skaðinn gæti orðið meira en orð fá lýst,  nákvæmlega á þeim tímapunkti þegar allir ættu að standa saman gegn umferðaslysum.

Staðreyndin er sú að það er venjulegt fólk á venjulegum hraða sem eru að deyja í umferðinni.  Við vitum að ölvun er alvarlegasta vandamálið og í þeim slysum er meirihluti alls ofsaaksturs í landinu sem endar með dauða.  1 til 3 slys eru vegna ofsaaksturs ungra ökumanna sem aka án vímuefna og eru að leika sér á götunum.  Eftir standa allskonar slys sem hafa margvíslegar ástæður.   Mesta vandamálið í umferðinni erum við sjálf ekki vondi karlinn á móti.  Meiri segja of hægur akstur er vandamál.  Vandamálin eru einfaldlega fleiri en flestir halda.

Staðreyndir málsins eru þær að ekkert eitt bjargar öllu.  Allur pakkinn verður að vera til staðar til að árangur náist.

Samtstaða:  Allir verða að taka þátt.  Brengluð umræða og öfgar eru til þess gerð að færa umferðaröryggisumræðuna mörg ár aftur í tíman.

Áróður:  Er mikill á Íslandi þar sem fjölmiðlar eru virkir þátttakendur.  Það eru fá lönd þar sem meira er talað um umferðaslys og afleiðingar þeirra.   Bæði yfirvöld og áhugafólk hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum.  Væntanlega er hámarksárangri náð í þessum flokki en stöðugt verður að halda umræðunni gangandi.

Löggæsla:  Á Íslandi er mesta og besta löggæsla í heimi.  Hvergi er eins mikið af virku eftirliti lögreglumanna í umferðinni.  Sektir eru einna flestar á hvert ökuskírteini í heiminum og þokkalegt punktakerfi.  Auðvitað er alltaf hægt að gera betur en fá lönd eru eins vel sett og Ísland í þessum málum.  Þau halda öðru máli fram, hafa ekki kynnt sér málið eða fylgst með hvernig þetta er gert í öðrum löndum.  Hér hafa yfirvöld staðið sig mjög vel síðustu ár.

Bílar:  Bílaflotinn á Íslandi er mjög nýlegur og flestir bílar eru 4 eða 5 stjörnu bílar.   Koma þarf gömlum og riðguðum bílum úr umferð.  Einstaka sinnum hefur fólk beðið bana vegna bíla sem ekki hafa fengið nægt viðhald.  Eftirlit með gömlum bílum þarf að vera strangara.  Það er líka ljóst að óeðlilegur þyngdarmunur er á léttustu og þyngstu bílunum í umferðinni.  Mjög erfitt er að leysa þann vanda með einu pennastriki.

Ökumenn:  Alltof margir kunna ekkert á öryggisbúnað bifreiða frá virku til óvirks öryggisbúnaðar.  Venjulegur ökumaður kann ekki bregðast við hættulegum aðstæðum því ökukennslan nær ekki yfir það svið  Kann fólk á ABS bremsur, eiginleika drifbúnaðar eða stilla höfuðpúða, stilla sæti eða festa farangur... hvað þá öryggisbúnað fyrir börn?  Fyrir utan að ölvunarakstur er skelfilegt vandamál þá er syfjandaháttur og áhugaleysi alltof algengt vandamál.  Gera þarf meiri kröfur um aksturshæfni en getu í krossaprófum.  Meirapróf á öflugustu ökutækin á að vera skilyrði.

Vegakerfið:  Þrátt fyrir góðan vilja.  Eitt orð: "GRÍN"!   Það er verið að tvöfalda Reykjanesbrautina og menn kunna ekki (vilja ekki, spara?) að staðsetja ljósastaura eða setja upp vegrið.  Bílar geta kútvelt um allar akreinar og út í hraun.  Þetta er nýjasta hönnunin!  Vegagerð dauðans!  Þá geta menn ímyndað sér afganginn þegar Reykjanesbrautin á að vera það besta sem íslensk vegagerð bíður uppá.  Hér eru verkefnin, hér vantar fjármagn og leiðbeinandi reglur. 

Það á að vera sjálfsögð krafa að umræðan um umferðaröryggi verði ekki leidd áfram af öfgaröddum sem stórskaða málefnið.   Ég vil þakka Birgi fyrir að vera til hér í umræðunni.  Það var frábært að sjá Ólaf á Stöð 2 í gær.  Ég hvet bæði aksturírþóttaáhugamenn og aðra áhugasama að taka höndum saman til bjarga málefninu áður en illa fer.

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband