Aldur þeirra sem fá prófskírteini til þess að aka bifreið.

Mér hefur lengi verið umferðaröryggi hugleikið. Í víðasta skilningi á það við um alla umferð, hvort sem er gangandi, hjólandi eða akandi, farþegi eða ökumaður. Ég trúi að ná megi þeim árangri að hvorki verði bani af né svo alvarleg meiðsl að örkuml hljótist af. Það er hins vegar margt sem þarf að falla á réttan hátt svo þannig verði. Umhverfi vega, tæknibúnaður bíla og síðast en ekki síst skynsemi í reglum sem lúta að akstri bíla.

Nú eru á leið til þingmanna drög að nýjum umferðarlögum. Margt er þar gott, sumt vantar þar en í einu máli finnst mér þeir sem hafa samið þessi drög hafi valið ódýru leiðina.

Að hækka aldur þeirra sem mega aka bifreiðum á vegum landsins í 18 ára er að mínu mati röng leið. Ísland er stórt og fábýlt og illmögulegt að komast leiða sinna án bíls á mörgum stöðum.

Í drög þessi vantar einnig tillögur að þrepaskiptingu á ökuleyfum hvað varðar afl bifreiða.

En úr því að ég tel hækkun ranga leið hvað þá? Eigum við að standa í stað og hjakka í sama farinu? Nei, alls ekki. Við eigum að gjörbreyta hugsun í þessum málum.

Ökutæki þarf að hæfa getu þess sem ekur. Þar skiptir stærð, afl og þyngd mestu máli.

Við eigum að lækka aldurinn í 16 ára en 15 ára fá að hefja ökunám. Eftir þriggja mánaða nám verður hægt að fá æfingaleyfi. Standist 16 ára strangt próf þá fær hann sólópróf á bíl. Það ökuleyfi á að gilda í hans svæði til dæmis Garðabæ, (skipta á Hafnarfirði í tvö svæði, Kópavogi í tvö og svo framvegis). Viðkomandi ökumaður má eingöngu aka á daginn frá 07 til 22. Hann má eingöngu aka smábíl. Hann skal alltaf aka með stórt L (lærlingur) á hliðum bílsins. Svæðin verða litamerkt til þess að auðvelda eftirlit. Eftirlitið skal að hluta fara fram með SAGAsystem eða TrackWell Floti sem sveitarfélögin ættu að útvega foreldrum barna, á aldrinum 16 til 18 ára.

Sjálft ökuprófið verður áfram miðað við 17 ára. Þó á ekki að veita 17 ára réttindi nema þeir hafi fyrst ekið í 3 mánuði með sólópróf. Sólópróf 17 ára má ná yfir stærra svæði en 16 ára. Það á að setja takmarkanir á afl vs. þyngd þeirra bíla sem viðkomandi fá leyfi á. Hugsanlega ætti að skilyrða prófið við ákveðna bíla. Takmarkanir á farþegafjölda eru af hinu góða en aftur verðum við að huga að staðháttum á Íslandi svo og slökum almenningssamgöngum áður en við fylgjum slíku eftir.

Tilgangur með þessu er að skapa möguleika á einhverri aðlögun að því lífi sem fólk lifir þegar það fullorðnast og færir sig úr foreldrahúsum. Umferðin má ekki vera í hugum fólks einhverskonar „ótakmarkað frelsi“ þar sem unglingar sleppa undan eftirliti foreldra. Hægt og rólega, þekking og reynsla er lykillinn að góðum árangri.

Þessu til viðbótar er rétt að nefna að finna má á veraldarvefnum tillögur mínar um að umferðarfræðsla eigi að vera hluti skólanáms frá upphafi skólagöngu. Það á einnig við um verklegar æfingar á bílum sem henta hverjum aldri. Ökukennarar eiga að koma að þeirri kennslu.

 

Skrifað í þeirri von að þetta verði lesið í rólegheitum og með athygli, Birgir Þór Bragason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Eftirlitið skal að hluta fara fram með SAGAsystem sem sveitarfélögin ættu að útvega foreldrum barna, á aldrinum 16 til 18 ára.
Einhver sérstök ástæða fyrir því að eftirlitið ætti að fara fram með þessu kerfi en ekki öðrum?  (ég vinn hjá Trackwell)

Matthías Ásgeirsson, 23.7.2009 kl. 10:26

2 identicon

Við þessar tillögur þínar um ökupróf vil ég einnig bæta að við ættum að horfa til þess hvernig Finnar haga ökunámi, en þar fær víst enginn ökuréttindi sem ekki hefur sýnt fram á færni við að ná tökum á bíl á hálum vegi og við akstur á möl, en til þess þarf æfingabraut sem hefði átt að vera orðin tilbúin þegar ég tók ökupróf fyrir einhverjum 17 árum síðan svo það er engin afsökun að hún sé ekki til.

Varðandi farþegatakmarkanir þá skil ég alveg hugmyndafræðina bak við þetta en þetta verður því miður að mínu mati regla sem verður allt of erfitt að fylgja eftir og því regla sem margir hunsa og lög sem er fyrirséð að margir hunsa eru vond. Það sem ég sé aðallega að þessum reglum er að unglingar á þessum aldri hafa gaman af að fara í bíó, allavega hafði ég það á þessum aldri, en kvikmyndir eru farnar að vera æði langar og margar vinsælar myndir um og yfir 3 tímar í sýningu með hléi, það þýðir að ætli 5 ungmenni saman á sýningu kl 20:00 þurfa þau skv þessum reglum að fara á 3 bílum þó þau búi kannski öll nálægt hverju öðru. En einnig er erfitt að æltast til þess að lögreglumaður átti sig á því hvort ökumaður er 19 ára eða 20 ára í sjón og því þarf að stöðva öll ökutæki þar sem grunur leikur á að ökumaður sé yngri en 20 ára en er með fleiri en 1 farþega í bílnum. Ef þú svo bætir við að sumir einstaklingar líta einstaklega unglega út, ég veit um þónokkur dæmi af fólki sem var spurt um skilríki við áfengiskaup og á skemmtistöðum fram yfir þrítugt, þá er ósennilegt að lögregla sinni þessum lið umferðarlaga nægilega.

Með stærðartakmarkanir ökutækja þá er ég sammála þér að það er fyrir löngu síðan orðið nauðsynlegt, hins vegar tel ég að smábíll sé aðeins of strangt, hafðu líka í huga að sumir af hættulegustu bílum íslenskrar umferðarsögu hafa verið smábílar svo sem Citroen AX14, Renault 5 Turbo, Peugot 219 og fleiri. Krafan um smábíl gerir líka kröfu á að foreldrar þurfi að eiga smábíl handa unglingnum, margir foreldrar hafa kannski ekki ráð á því að eiga bæði fjölskyldubíl sem öll fjölskyldan kemst í og smábíl handa unglingnum. Að mínu mati gæti verið heppilegra að takmarka þetta með því að ökutækið megi ekki vera nema ákveðið aflmikið miðað við þyngd með hámarksþunga, meðalstór fjölskyldubíll er í dag kringum 1400 til 1500 kg og því mætti alveg setja efri mörk á hámarksþunga við 1500kg og hámarksafl gæti verið 11 til 12 kg á hvert hestafl en sem þýðir að 1500kg bíll mætti að hámarki vera um 130 hestöfl. Tel að flestir meðal fjölskyldubílar ættu að passa við það.

Kjartan Þór (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 10:47

3 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Bara vanþekking mín kæri Matthías. Þú fyrirgefur mér það vonandi.

Birgir Þór Bragason, 23.7.2009 kl. 11:20

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Að sjálfsögðu, ég vildi bara nota tækifærið til að plögga

Matthías Ásgeirsson, 23.7.2009 kl. 11:29

5 identicon

Sammála mér hefur fundist 17eða 18 ára  ekki vera aðalatriðið .Finnst glannalegt að sjá 17 ára krakka vera rúnta á nóttinni með jafnöldrum sínum.17 ára krakkar ættu að vera enn á einhverjum takmörkunum en mér finnst allt í lagi að þau spreyti sig .Mér datt í hug sel það þó ekki dýrara en ég keypti það að miða við dagkeyrslu (t.d. 7-22 ) Í fluginu tíðkast þrepaskipting réttinda og það er í einhverri mýflugumynd í ökuréttindum en ekki nógu afgerandi.

Hörður Halldórs. (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 18:39

6 identicon

Að takmarka fjölda farþega getur oft verið slæm hugmynd. Íslenskir unglingar byrja að drekka og skemmta sér í kringum 16-17ára.

Þegar partý-ið er búið er þá ekki bara besta á mál ef einn ábyrgur einstaklingur er alsgáður að keyra hina heim?

Þarf ekki að horfa á þá staðreynd að ef manneskja hefur ástæðu þá finnur hún leið?

Annars þá er ég mjög hlynntur því að skipta þessu í þrep og auka kennslu. Takmörkun á afli eru heldur ekki vitlaust. En takmörkun á farþegafjölda eða útivistatími fyrir 17ára tel ég vera tóma vitleysu.

Rúnar Ingi (IP-tala skráð) 28.7.2009 kl. 19:34

7 identicon

Í skýringum við þessa grein fæst sá rökstuðningur að ástæða þessara takmarkana sé að akstur á þessum tíma tengist yfirleitt skemmtunum ungmenna þar sem áfengi er haft um hönd.

Sé þetta tilgangurinn þá er eðlilegra að gera það ólöglegt að vera ölvaður farþegi í bíl hjá ungmenni á aldrinum 17-20. Get ímyndað mér að margir ungir ökumenn yrðu bara nokkuð glaður við það.

En þessi takmörkun eins og hún er sett fram er þannig að erfitt ef ekki ómögulegt er að framfylgja henni, auk þess sem hún virkar á mig sem röng lausn á vitlausu vandamáli.

Það sem veldur því að illmögulegt er að framfylgja þessari reglu er t.d. að við erum með 2 unglinga A og B, A fær ökuréttindi viku áður en lögin taka gildi og hefur réttindi til að flytja 7 farþega öllum tímum sólarhringsins allan ársins hring, B fær réttindin eftir gildistöku laganna og fær því þessi takmörkuðu réttindi. A heldur sínum réttindum þar sem hann fékk réttindi samkvæmt eldri lögum og ekki er hægt að taka aftur réttindi sem einstaklingur hefur öðlast nema með dómi.

Eina leiðin til að framfylgja þessu er að lögreglu sé skilt að stöðva alla unga ökumenn sem hafa fleiri en einn farþega í bílnum. Þetta er afskaplega vond hugmynd að mínu mati.

Kjartan Þór (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband