Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Beltin bjarga

Gott að ekki fór verr. Það er mér hins vegar hulin ráðgáta hvers vegna sumir nota ekki beltin. Dæmin sýna að þau bjarga. Dæmin sýna líka að flest óhöppin verða á fyrstu þremur kílómetrunum sem eknir eru. Meira en helmingur allra umferðaróhappa verða í Reykjavík einni. Spennum beltin, líka innanbæjar.
mbl.is Bílvelta milli Hvolsvallar og Hellu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingur slysa skráður!!

Það vekur furðu mína hve hægt þetta mál gengur. Á landi þar sem nánast allir nota tölvur, nánast allir eru nettengdir, og allar stofnanir geta ef vilji er fyrir hendi skráð nánast hvað sem er. Hvað veldur því að þetta er í jafn miklum ólestri og raun ber vitni?

Í 8. grein laga um Lýðheilsustöð segir: Slysavarnaráð. Hlutverk slysavarnaráðs er að stuðla að fækkun slysa. Ráðið skal sjá til þess að slys séu skráð með samræmdum hætti. Jafnframt skal ráðið hlutast til um úrvinnslu skráðra upplýsinga og birtingu þeirra. Ráðið mótar reglur um framkvæmd skráningar og aðgang að upplýsingum úr skránni. Samræmd slysaskrá skal varðveitt hjá landlækni. Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um skipan ráðsins og starfsemi þess.

Hver er og hefur verið formaður þessa ráðs undanfarin ár? Hver er ábyrgur fyrir því að þetta er í ólestri?


mbl.is 32.500 slys á skráð í slysaskrá á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími á viðtal

Mér finnst kominn tími á að fjölmiðlar ræði við formann umferðarráðs um áherslur og stefnu ráðsins. Formaður umferðarráðs, Kjartan Magnússon, hefur ekki verið beint áberandi nú í sumarbyrjun. Við vitum að sumarið er því miður tími alvarlegra umferðarslysa og umferðaraöryggismál eru þannig að þeim þarf að halda á lofti, ekki bara í kjölfar slysa heldur alltaf.

Hver er stefna formannsins? Hvað á að gera í sumar til þess að tryggja árverkni ökumanna? Á að leggja umferðarráð niður? Á að gera einhverjar breytingar á ráðinu? Er núverandi fyrirkomulag að skila einhverjum árangri?

Til þess að koma í veg fyrir umferðaróhöpp þarf að vita hvar á að bregða niður fæti. Í Japan er eitt snilldar verkefni í gangi. Verið er að safna í gagnagrunn, hættulegum stöðum. Það er gert með því að gefa ökumönnum kost á að skrá inn í grunninn atvik þar sem þeir voru næstum því búnir að lenda í árekstri. Gagnaskráning fer fram í gegnum netið, þannig að hver og einn getur gert þetta heiman frá eða frá hverjum þeim stað þar sem hann kemst á netið.

Söfnun slíkra gagna á Íslandi gæti varpað ljósi á svarta bletti svo hægt verið að lagfæra aðstæður áður en slys verður. 


Ísland - Danmörk

Ég er búsettur í Danmörku og sá því ekki íslenska leikinn í gær. Það var hinsvegar hægt að hlusta á lýsingu á leiknum á netinu. En úff leikurinn var greinilega svo leiðinlegur að þulirnir nenntu ekki að lýsa honum. Rólegt mal Bjarna svæfði mann en upphrópanir Lárusar vöktu mann stöku sinnum. Horfði hinsvegar á danska leikinn. og það var skemmtilegt. Danska vörnin og markmaðurinn áttu hvert klúðrið að fætur öðru í leiknum og frekar slappir svíar nýtt það til fulls. Að vera 0 - 3 undir á heimavelli er nú ekki það sem danskir áhorfendur áttu von á eftir aðeins 30 mínútna leik. Það var þó von því enn voru eftir 60 mínútur. Þvílík stemming þegar staðan jafnaðist og í stöðunni 3 - 3 gat eiginlega allt gerst. Flestir dönsku leikmennirnir voru búnir á því, sumir alveg örmagna. Sóknir á báða bóga og jafntefli ekki í loftinu. En svo gerist það. Tveir leikmenn áttust við, eiginlega á vítapunkti danskra, en boltinn var úti á kannti. Eitthvað fór þetta í þann danska og hann kýlir þann sænska undir bringuspalirnar. Ljótt brot og á ekki að eiga sér stað. Línuvörðurinn sá þetta og flestir vita framhaldið. Danir eru almennt í sárum eftir þessa uppákomu, danir elska fótbolta og þeir elska landsliðið sitt, að tapa stigunum er ekki það sárasta, frekar er það niðurlægingin sem felst í þessu stílbroti danskra áhorfenda.

Von

Ég vona svo sannarlega að þið náið bata.  Vinur minn sem slasaðist alvarlega í síðasta mánuði, er hann reyndi að forða árekstri mótorhjóls og bíls, er á batavegi. Honum var haldið sofandi nokkurn tíma á meðan bólgur hjöðnuðu og sársaukinn var mestur. Frábæru starfsfólki á bráðadeildum er sjaldan þakkað í fjölmiðlum þegar vel tekst til, en ég ætla að þakka þeim hér fyrir það sem þau gerðu og eru að gera fyrir vin minn. Vonandi gengur það líka hjá ykkur.

     Tvöföldun eða 2+1 hefur verið nefnt í tengslum við þessa frétt. Þegar slíkir vegir eru byggðir er aðaláherslan á að aðskilja akstursstefnur. Það er ekki málið í þessu tilfelli ef marka má fréttir af slysinu. Augnabliks einbeitingarleysi við akstur bifreiða getur verið orsökin og það er því tilefni til að hvetja alla til að hugsa um aksturinn og fara varlega.


mbl.is Alvarlega slösuð á gjörgæsludeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband